Misheppnaðar tilraunir

Ég er búin að gera margar, margar misheppnaðar tilraunir til að léttast. Einu sinni fór ég á Herbalife í meira en mánuð og var bæði svöng og pirruð, en léttist ekki um gramm. Ég prófaði líka Atkins kúrinn og léttist, en meltingin fór alveg í klessu! Ég fór á átaksnámskeið hjá Báru og léttist en var stöðugt svöng og auk þess mjög slæm í maganum út af öllum mjólkurvörunum. Ég fór til einkaþjálfara í þrjá mánuði og léttist nær ekkert, en styrktist heilmikið og leið betur í bakinu. Ég veit að mataræðið skiptir mestu máli í þyngdartapi, þó að líkamsræktin hjálpi vissulega eitthvað til. Það er auðveldara að þyngjast en að léttast og stundum væri ég til í að gera eitthvað róttækt eins og að hreinlega leggjast undir hnífinn eða taka inn einhver lyf, en ég ætla að gera úrslitatilraun með danska kúrinn núna.