Beina brautin

Jæja, það er langt síðan ég hef skrifað hér, kannski vegna þess hvað mikið hefur verið að gera. Ég fór á annað átaksnámskeið og hef verið mjög dugleg í ræktinni. Ég er komin niður fyrir 90 kíló og gott betur, þar sem ég er núna 88 kíló og er súperánægð með það. Miðað við hæð á ég um tíu kíló eftir í kjörþyngd. Ég hef bætt á mig fullt af vöðvum og í fitumælingu í ræktinni hefur mikið breyst. Ég nota orðið tveimur buxnastærðum minna en ég gerði og líka minni stærð í brjóstahöldurum og peysum. Ef ég held þessu áfram verð undir 85 kíló um áramótin, sem var markmið mitt þegar ég byrjaði aftur í haust.

Tveggja stafa talan

Það er búið að ganga vel á námskeiðinu og ég er komin í tveggja stafa tölu og vel það. Er komin niður í 97 kíló og er mjög ánægð. Held að ég fari bara beint á annað átaksnámskeið á eftir þessu, þar sem þetta er greinilega að virka og veitir mér mjög gott aðhald. Mig langar alls ekki alltaf í leikfimi eftir vinnu, eiginlega sjaldnast, en ég læt mig hafa það þar sem við erum lesnar upp og spurt í næsta tíma ef maður mætir ekki. Kannski næ ég því að vera 85 kg. um áramótin, en það er markmiðið mitt.

Ninety-nine baby

Nei, ég er ekki alveg búin að ná tveggja stafa tölu eins og hún Veiga (big2tiny), en það liggur við. Reyndar hef ég farið niður í 99 kg. á vigtinni heima, en í opinberu vigtuninni er ég ennþá í þriggja stafa tölu. En það hlýtur að koma í þessari viku eða næstu!

Ég skellti mér á átaksnámskeið og er að byrja þriðju vikuna núna. Fyrsta vikan var alveg skelfilega erfið, því ég fann svo mikið til eftir æfingarnar. Ég fór í nudd og það lagaðist aðeins. Núna er ég farin að hafa hæfilega gaman af tímunum, en ég er ekki enn byrjuð á lyftingaprógramminu sem fylgir námskeiðinu. Finnst nógu erfitt að æfa þrisvar í viku til að byrja með og svo gönguferðir. Er samt að spá í að byrja að lyfta líka í næstu viku.

Haust

Mér hefur ekki gengið vel að koma mér af stað eftir sumarfrí. Ég hef ekki mætt í vigtun og get ekki mætt í þessari viku, þar sem ég hef ekki efni á að borga gjaldið fyrr en eftir mánaðarmót. En strax í næstu viku ætla ég að mæta og þá ætla ég líka að kaupa mér nýtt líkamsræktarkort. Er ekki alveg búin að ákveða hvort að ég fer á lokað námskeið eða bara í tækjasal. Lokað námskeið gefur betra aðhald, en það er líka dýrara. Svo er ég ekki viss um að ég ráði við það út af vefjagigtinni sem ég er með. Í öllu falli ætla ég að byrja aftur í ræktinni og reyna að standa mig í vetur.

Myndabömmer

Þá er sumarfríið búið og alvara lífsins tekin við aftur. Þó að ég hafi verið í sumarfrí hef ég ekki þyngst aftur. Að vísu hef ég lést hægar en áður, enda leyfir maður sér ýmislegt í sumarfríi erlendis sem ekki leyfist annars. Ég var bara ánægð með mig í fríinu, hafði keypt mér nokkuð af nýjum sumarfötum og var glöð yfir því að þau voru ívið lausari á mér að fríinu loknu en þegar ég keypti þau. Þrátt fyrir spéhræðslu gerðist ég svo djörf að klæðast bikini upp á hvern dag og leið alveg þokkalega. En svo sá ég myndirnar úr sumarfríinu í dag og ánægjan hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég reyni að forðast myndavélina og sit ekki oft fyrir á myndum, en stundum verður ekki komist hjá því. Mér fannst ég líta hryllilega út á öllum myndunum, of feit, með undirhöku, allt of stór brjóst, bumbu og tilheyrandi. Gleðin yfir sumarfötunum og brúnkunni er horfin. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég bara búin að missa rúm fjögur kíló og það er ekki mikið. Ég á svo langt í land og þegar maður sér svona er erfitt að halda andlitinu og auðvelt að missa dampinn og leggjast í þunglyndi aftur.

Jæja

Það fóru 800 grömm í vigtuninni í þessari viku og þá er ég búin að losna við 2,6 kíló frá upphafi. Ég hef ekki verið alveg nógu dugleg að hreyfa mig í þessari viku, en það er vegna þess að ég meiddi mig í fætinum. Mér er að batna og vonandi get ég farið á fullt aftur í ræktina strax í næstu viku. Annars langar mig að fara að byrja í sundi. Verst hvað ég er spéhrædd við að vera á sundbol. Ég veit að kona á mínum aldri á að vera nógu sterk til að hugsa ekki um hvað fólki finnst, en ég er það ekki.

Áfram veginn

Ég fór í vigtun í dag og það fór hálft kíló í þessari viku. Ég myndi alveg vilja missa eitt eða eitt og hálft kíló á viku eins og sumir, en þetta er allt í áttina og kannski er ekkert verra þó að þetta gerist hægar. Svo segir leiðbeinandinn í danska kúrnum að hálft kíló til sjöhundruð grömm á viku sé algengasta þyngdartapið. Mesti munurinn á þessu mataræði og til dæmis prótíndrykkjum eða herbó er að ég er ekkert svöng. Ég er að hugsa um að splæsa í einkaþjálfara um næstu mánaðarmót og sjá hvort að það hjálpar.

Misheppnaðar tilraunir

Ég er búin að gera margar, margar misheppnaðar tilraunir til að léttast. Einu sinni fór ég á Herbalife í meira en mánuð og var bæði svöng og pirruð, en léttist ekki um gramm. Ég prófaði líka Atkins kúrinn og léttist, en meltingin fór alveg í klessu! Ég fór á átaksnámskeið hjá Báru og léttist en var stöðugt svöng og auk þess mjög slæm í maganum út af öllum mjólkurvörunum. Ég fór til einkaþjálfara í þrjá mánuði og léttist nær ekkert, en styrktist heilmikið og leið betur í bakinu. Ég veit að mataræðið skiptir mestu máli í þyngdartapi, þó að líkamsræktin hjálpi vissulega eitthvað til. Það er auðveldara að þyngjast en að léttast og stundum væri ég til í að gera eitthvað róttækt eins og að hreinlega leggjast undir hnífinn eða taka inn einhver lyf, en ég ætla að gera úrslitatilraun með danska kúrinn núna.

Átak hafið

Ég er búin að reyna að komast af stað í nýjum lífsstíl í vetur en það hefur gengið hægt. Er búin að prófa ýmislegt, bæði einkaþjálfara, átaksnámskeið og fæðubótarefni, án mikils árangurs. Þarf að losna við um þrjátíu kíló og er orðin hundleið á því að vera feit og óánægð með sjálfa mig. Nú er ætlunin að reyna danska kúrinn í annað sinn og halda áfram þar til takmarkinu er náð.